CrossfitBC.is


CrossFit er fyrir alla. Ekki halda að þetta sé bara fyrir unga hrausta fólkið. Markmið okkar í CrossFit Stöðinni er að bjóða uppá CrossFit þjálfun sem miðar að því að koma ÞÉR í form, sama hver þín líkamlega geta er í dag.

Líkamlegar þarfir íþróttamanna og þeirra sem hafa aldrei hreyft sig áður eru í grunninn þær sömu. Við þurfum að gera sömu hreyfingar og örva sömu vöðva og orkukerfi líkamans. Munurinn á æfingum þessara tveggja aðila er fyrst og fremst stigsmunur og leggjum við mikið upp úr því að allar okkar æfingar sé hægt að aðlaga eða “skala” að líkamsgetu hvers og eins.

Þegar þú byrjar í CrossFit byrjar þú á því að fara á Grunnnámskeið. Grunnnámskeiðin eru fjögurra vikna löng og eru þrjár æfingar í hverri viku. Á grunnnámskeiðinu kennum við þér undirstöðuatriðin í CrossFit, hvernig á að beita líkamanum rétt við framkvæmd æfinga og hvernig þú skalar æfingarnar að þinni getu.

Gerðu þér greiða og prófaðu kerfið okkar í fjórar vikur - það eru einungis 12 skipti. Fæstir snúa aftur í aðra líkamsrækt eftir að hafa prófað CrossFit.


Spurt og svarað

Hvar er CrossFit Stöðin?

Við erum staðsett á Suðurlandsbraut 6b en frá og með 21.maí færist starfsemin yfir í nýtt og glæsilegt húsnæði við Rafstöðvarveg í Elliðaárdal.

Fyrir hverja er CrossFit Stöðin?

CrossFit Stöðin er fyrir alla þá sem eru tilbúnir að mæta fullir af metnaði og vilja leggja sig fram við að ná árangri sama hvernig líkamlegt form þeirra er í dag. Hvort sem þú ert í toppformi eða hefur aldrei æft áður, þá er CrossFit Stöðin fyrir þig.

Af hverju að æfa hjá ykkur þegar æfingin er birt á netinu? Get ég ekki bara gert hana sjálf/ur?

Öllum er frjálst að nota æfingarnar sem við birtum á netinu. Það sem fólk fær aukalega með því að taka æfingu dagsins hjá okkur er:

  • þú færð þjálfun og kennslu í æfingunum. Sumar hverjar eru of flóknar fyrir marga að læra á eigin vegum eins og td ólympísku lyfturnar, ýmsar fimleikaæfingar ketilbjölluæfingar o.fl.
  • aðgang að toppaðstöðu þar sem allt er til alls
  • þú lágmarkar líkur á meiðslum með faglegri þjálfun og eftirliti á æfingum
  • sameiginleg upphitun og teygjur í lok æfinga
  • hvatningu frá þjálfurum og hópnum sem skiptir gríðarlegu máli eins og þú átt eftir að komast að.

Ég hef heyrt mikið talað um CrossFit keppnir, eru allir sem æfa CrossFit að keppa á CrossFit mótum?

CrossFit keppnir eins og sú sem er í Þrekmótaröðinni, heimsleikarnir og undankeppnir þeirra (Íslandsmót og Evrópuleikar) eru stór hluti af CrossFit. Þar eru samankomnir einstaklingar í góðu formi sem vilja sjá hvar þeir standa miðað við aðra. Keppnirnar eru þó ekki það sem CrossFit snýst um og aðeins lítill hluti þeirra sem æfa CrossFit er með það að markmiði að keppa á mótum. Það eru þeir sem mæta reglulega á CrossFit æfingar með það að markmiði að bæta sig sem gera CrossFit að því sem það er; frábært æfingakerfi sem hentar hverjum sem er hversu ólík sem markmið þeirra kunna að vera. Keppnirnar eru hins vegar mjög hvetjandi fyrir marga til að bæta sig og stórskemmtilegar að horfa á fyrir okkur hin.

Mörg ykkar sem lesið þetta hafa gert sömu æfingarnar í mörg ár. Hversu mikið hefur þú bætt þig síðustu þrjá mánuði? Eða síðasta árið? Hvað þá síðustu tvö ár? Ef þú ert ein/n af þeim sem hefur hjakkast í sama farinu, af hverju ekki að prófa eitthvað nýtt? Komdu tilbúin/n að taka á því á æfingum, huga vel að mataræðinu og þú munt sjá og finna ótrúlegar breytingar.


CrossFit Stöðin

Rafstöðvarvegi 9a | crossfitstodin@crossfitstodin.is | Sími: 517 6070